Sænskukennsla frestast enn um sinn

Því miður verður einhver bið á því að kennsla í sænsku geti farið fram, þar sem enn er verið að leita að sænskukennurum. Við biðjum skóla að hafa samband við foreldra barnanna og segja þeim frá stöðu mála.

Við biðjum því foreldra að sýna þessu ástandi skilning og hvetjum nemendur til að halda sænskunni við með því að lesa bækur og hlusta/horfa á sænska miðla.

Í tungumálasamningi Norðurlandanna skuldbinda þjóðirnar sig til að kynna grannmálin fyrir nemendum sínum. Oft hefur farið lítið fyrir þessum kynningum hér á landi og annars staðar. Því hvetjum við nemendur til að rækta hæfni í skilningi á grannmálunum með því að sækja dönskutíma í skólanum. Í dönskutímum geta sænskunemar fengið æft skilning á mæltu og rituðu dönsku máli. Ekki er þó ætlast til að þeir æfi sig dönsku tal- eða ritmáli. Nemendur geta unnið verkefni með samnemendum, en skila úrlausnum á sænsku.

Vilji menn taka framförum í ritmáli er góð leið að skrifa dagbók/minningar/allt sem pirrar og gleður - skrifa lýsingar á deginum og vangaveltum um lífið og tilveruna - bara stutt á hverjum degi. Þannig virkja nemendur orðaforða og auka málvitund. Skrifi nemendur þetta í tölvu geta þeir stillt á sænskt lyklaborð og fengið málfars- og stafsetningarleiðréttingu. Aðalatriðið er að nota tungumálið í eðlilegum aðstæðum.

Einnig má benda á að ágætis hlustunar/áhorfsverkefni á SVT-play og idol á tv4 play er mjög vinsælt meðal unglinga.