Um Tungumálaverið

Tungumálaverið er þjónustustofnun þar sem veitt er ráðgjöf í norsku og sænsku til skóla og sveitarfélaga um allt land. Þar fer fram staðbundin kennsla í norsku, pólsku og sænsku fyrir nemendur í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum. Boðið er upp á netnám í norsku, pólsku og sænsku fyrir nemendur innan bæjar og utan.

Krafist er undirstöðukunnáttu af nemendum í Tungumálaveri. Þeir þurfa að skilja allvel talaða norsku, sænsku eða pólsku, geta lesið og skilið norska, pólska, sænska texta sem hæfa aldurshópi þeirra og geta gert sig skiljanlega á talaðri norsku, pólsku eða sænsku.


Markmið Tungumálavers er þríþætt: 

  • Að veita kennurum og skólum ráðgjöf og fræðslu um kennsluhætti er stuðla að einstaklingsmiðuðu námi og nemendasjálfstæði í tungumálum með aðstoð tæknimiðla. 
  • Að búa nemendum námsaðstæður einstaklingsmiðaðs náms með upplýsingatækni. 
  • Að efla sjálfstæði nemenda með því að leggja áherslu á markmiðsbundna kennsluhætti og mat með námsmöppum.

Í Tungumálaveri starfa deildarstjóri, kennsluráðgjafar í norsku og sænsku, kennarar í norsku og sænsku, kennari í pólsku.

Staðbundin kennsla í norsku, pólsku og sænsku er fyrir nemendur í 7. og 8. bekk í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum: Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi.

Staðnám fer fram í norsku, sænsku og pólsku í tveimur kennslustundum á viku í hverju tungumáli. Miðstöð staðnámsins er í Laugalækjarskóla og einnig er hvert fag kennt í 1 - 2 öðrum skólum. Leitast er við að velja kennslustaði þannig að þeir liggi vel við samgöngum og búsetu nemenda.

Boðið er upp á netnám í norsku, sænsku og pólsku fyrir nemendur innan bæjar og utan. Netnám er ætlað nemendum í 9. og 10. bekk. Nemendur eru dreifðir um land allt og oft eru fáir einstaklingar í sama tungumáli eru í hverjum skóla og í hverjum árgangi. Kennari notar fjölþætta tæknimiðla til samskipta við nemendur.

Tungumálaver er í samstarfi við um 30 sveitarfélög. 

Tungumálaver er virkur aðili að Tungumálatorginu og leggur því til efni og upplýsingar um skipulag kennslu, kennsluhætti- og matsaðferðir í tungumálum.