Úr Aðalnámskrá:

"Annað erlenda tungumálið sem nemendur læra í grunnskóla er danska eða annað Norðurlandamál. Gert er ráð fyrir að danska sé alla jafna það norræna tungumál sem kennt er í skólum hér á landi en kennsla í norsku eða sænsku stendur til boða nemendum sem hafa sérstök tengsl við Noreg eða Svíþjóð. Kennslan kemur í staðinn fyrir dönskukennslu og hefst á sama tíma og dönskukennsla hefst í grunnskólanum.

Í lögum um grunnskóla (25. gr) er kveðið á um að í námskrá skuli sett ákvæði um inntak og skipulag náms í dönsku eða öðru Norðurlandamáli, sem lýsir vilja yfirvalda til að íbúarnir eigi þess kost að vera virkir þátttakendur á norrænum vettvangi.

Góð kunnátta í einu norrænu tungumáli er lykill að hvaða svæði sem er á Norðurlöndunum og greiðir fyrir öllum samskiptum."

 

Á hverju hausti er gefinn út námsvísir fyrir aðstandendur nemenda og tengiliði þeirra í heimaskóla og á hverju misseri eru birtar kennsluáætlanir fyrir hvern árgang.