Netnám

Netnám

Boðið er upp á netnám/fjarkennslu í norsku, sænsku og pólsku.

Netnám er ætlað nemendum þar sem fáir einstaklingar með sömu þarfir eru í hverjum skóla og í hverjum árgangi. Nemendurnir eru dreifðir um land allt. Kennari notar tæknimiðla til samskipta við nemendur.

Auðveldara er að miða kennslu og leiðbeiningar við hvern einstakan nemanda. Þetta er í raun einkakennsla. Kennarinn einbeitir sér að einum nemanda í senn og getur hagað orðum sínum og efni eftir því. Enginn tími fer í "agavandamál". Enginn nemandi getur lagt undir sig kennslustund og truflað eða tafið fyrir hina. Enginn nemandi kemst undan að taka ábyrgð eða getur falið sig aftast í bekk heilan vetur án þess að leggja neitt til málanna. Tengslin við nemendur verða jafnvel persónulegri hér en í bekk, þó furðulegt kunni að hljóma. Mörgum nemendum finnst auðveldara á tjá sig maður á mann en fyrir framan heilan hóp. Hér verða nemandi og kennari jafngildir samverkamenn.

Námsefnið er sveigjanlegt. Ekki er unnið eftir kennslubók, enda hefur lítið efni verið samið sérstaklega með þennan nemendahóp í huga. Allt efni er sérvalið eða sérsamið og síbreytilegt og notað er aðallega raunefni af vefsíðum frá heimalandinu. Auðvelt er að breyta, bæta við efni frá nemendunum sjálfum eða fréttum sem eru efst á baugi á málsvæðinu hverju sinni. Nemendur geta haft áhrif á hvaða efni er tekið fyrir, þeir geta valið það sem þeir hafa áhuga á.

Tengslin við heimili og forráðamenn hafa batnað og eru miklu nánari nú en fyrr. Sent er yfirlit yfir vinnu nemenda mánaðarlega til foreldra. Margir foreldrar hafa samband reglulega og kunna að meta þessa nálægð. Foreldrar ráða að sjálfsögðu sjálfir hversu mikið þeir blanda sér í málin, en margir foreldrar fara reglulega með bönrum sínum inn á vefinn til að skoða eða leggja þeim lið.

Margir benda á að munnleg þjálfun verður útundan í netnámi. Munnleg þjálfun þarf að vera í fyrirrúmi á allri málakennslu. Nemendur fá reglulega verkefni sem þarf að undirbúa og leysa munnlega. Nemandinn hringir svo í kennarann á skólatíma og leysir verkefnið í samtali við kennarann. Þetta virkar nokkuð vel.  Sérstaða nemenda í netnámi Tungumálavers er að þeir eru ekki byrjendur. Þeir hafa allir lært málið áður. Flestir er sterkastir í munnlega þætti málsins og þurfa síst að æfa talmál.

Gerðar eru tilraunir til að skapa hópvinnuverkefni með þátttöku í alþjóðlegum samvinnuverkefnum. Það skapar aðstæður þar sem nemendur geta lært hver af öðrum þvert á höf og lönd. Hópvinnan verður þó en ekki unnin á sama hátt og í kennslustofunni. Ekki er hægt að grípa eitthvað á lofti og gera úr því "dæmisögu" eins og auðvelt er í kennslustund.

Námið kemur jafnframt til móts við ýmis önnur almenn markmið aðalnámsskrár. t.d. er upplýsingatækni mjög markvisst notuð í faginu. Áhersla er á að nemendur taki sjálfir ábyrgð á eigin námi. Kennslan er einstaklingsmiðaðri en ella. Námsmat er mjög gegnsætt og auðskilið og beintengt  vinnu nemenda.

Gry Ek Gunnarsson