Staðnám

Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla stendur kennsla í norsku eða sænsku til boða fyrir nemendur sem hafa sérstök tengsl við Noreg eða Svíþjóð og kemur kennslan þá í staðinn fyrir dönskukennslu og hefst á sama tíma og dönskukennsla hefst í grunnskóla.

Kennslustundir eru tvær á viku og fer kennsla fer fram á 1 – 3 stöðum í borginni og er skólum í Reykjavík að kostnaðarlausu.

Í aðalnámskrá grunnskóla er vitnað í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna þar sem fram kemur að öll börn eigi rétt á að viðhalda móðurmáli sínu þrátt fyrir flutning frá heimalandi. Með móðurmálskennslu innan eða utan skólans er því stuðlað að jafnrétti til náms fyrir alla nemendur.

Í greinargerð sem fylgir 16. grein frumvarps til grunnskólalaga segir m.a.: “gert ráð fyrir að grunnskólum verði heimilt að viðurkenna kunnáttu eða nám nemenda með annað móðurmál en íslensku í eigin móðurmáli sem hluta af skyldunámi er komi í stað skyldunáms á erlendu tungumáli eða verði metið sem valgrein.”  Boðið er upp á kennslu í pólsku fyrir nemendur í 7. og 8. bekk sem hafa sama bakgrunn og nemendur í norsku og sænsku.

Nemendur þurfa að hafa ákveðna undirstöðukunnáttu til að geta nýtt sér nám á vegum Tungumálavers.

Mikilvægt er að forráðamenn og skólar láti kennara í staðnámi vita ef nemandi kemst ekki í tíma.